Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United sagði eftir ósigurinn gegn AC Milan í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld að sínir menn hefðu einfaldlega ekki verið nógu góðir og Ítalirnir hefðu unnið sanngjarnan sigur. AC Milan mætir Liverpool í úrslitaleik keppninnar eftir að hafa sigrað 3:0 í kvöld og 5:3 samanlagt.
„Leikmenn Milan fengu sín mörk á ódýran hátt og það eru mestu vonbrigðin. Þeir voru kraftmeiri og fljótari á boltann og ég held að þeir hafi unnið þetta sanngjarnt. Við vorum í fyrsta gír allan tímann og náðum okkur aldrei á strik. Satt best að segja vorum við aldrei líklegir til að skora," sagði Ferguson.
Nokkrir lykilmanna United komust aldrei í gang, svo sem Ryan Giggs, Wayne Rooney og Cristiano Ronaldo. „Cristiano olli mér vonbrigðum í kvöld. Hann veit það sjálfur en hann er ungur og á kvöldi sem þessu áttar hann sig á fagmennsku og reynslu AC Milan. Það er gott fyrir hann að sjá hvað á eftir að læra," sagði Ferguson, sem telur að lið sitt muni svara fyrir sig á ný í grannaslagnum við Manchester City í úrvalsdeildinni á laugardaginn.
„Við þurfum að leggja þessi vonbrigði til hliðar. Við höfum höndlað svona lagað áður og ég er viss um að strákarnir höndla þetta á laugardaginn. Þeir geta tryggt okkur titilinn og við þurfum að sjá til þess að þeir komi tilbúnir í þann slag," sagði Alex Ferguson.