José "Pepe" Reina, markvörður Liverpool, var hetja sinna manna í gærkvöld þegar hann varði tvær vítaspyrnur gegn Chelsea og kom þeim í úrslitaleikinn í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu. En þegar hann kom heim til sín eftir leikinn var brosið fljótt að hverfa því brotist hafði verið inní húsið hans og m.a. var Porsche-bifreið hans stolið en hún fannst gjörónýt í morgun eftir að kveikt hafði verið í henni.
Þjófarnir höfðu ýmislegt fleira á brott með sér, m.a. skjöl, skartgripi og tæki.
Reina er fjórði leikmaður Liverpool sem er rændur á svipaðan hátt á tæpu ári og yfirleitt hafa innbrotin átt sér stað á meðan leikir hjá þeim hafa staðið yfir. Jerzy Dudek, Daniel Agger og Peter Crouch urðu allir fyrir þessu sama á síðasta ári og þá var tvívegis brotist inn í fyrra hjá Andy van der Meyde, leikmanni grannliðsins Everton.