Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United segir að það þýði ekkert að treysta á aðra í baráttunni um enska meistaratitilinn. Arsenal gæti tryggt United titilinn á sunnudaginn með því að sigra Chelsea, svo framarlega sem United leggur nágranna sína í Manchester City að velli í nágrannaslagnum á morgun.
„Fyrir okkur snýst leikurinn um sigur og ekkert annað. Við getum ekki leyft okkur að hugsa öðruvísi, það væri rangt hugarfar. Ég veit ekki hvað Chelsea gerir, en ef við töpum á morgun og þeir vinna síðustu þrjá leiki sína, verða þeir meistarar. Þess vegna þurfum við að einbeita okkur að því að vinna City, og engu öðru. Við getum ekki treyst á aðra," sagði Ferguson en United hefur tapað þrívegis fyrir City í fjórum síðustu heimsóknum sínum á City of Manchester leikvanginn, heimavöll City.
Manchester United er fimm stigum á undan Chelsea þegar bæði lið eiga þrjá leiki eftir. Vinni United leikinn við City verður munurinn átta stig og þá verður Chelsea að vinna Arsenal á sunnudag til að eiga möguleika á titlinum. Chelsea og United mætast síðan á Stamford Bridge á fimmtudaginn kemur, 9. maí.