José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, er ekki búinn að gefa upp vonina í einvíginu við Manchester United um enska meistaratitilinn þó staða United sé mjög vænleg. Chelsea verður að vinna Arsenal á útivelli í dag til að eiga möguleika en Mourinho segir að lið sitt geti enn unnið tvo titla í næstu fjórum leikjum sínum.
„Tímabilið er ekki búið, það eru enn tveir titlar í húfi og nú er mikilvægt að leikmenn okkar sýni hvað í þá er spunnið," sagði Mourinho. Leikur Arsenal og Chelsea hefst á Emirates-leikvanginum klukkan 15.00.
Á miðvikudaginn leika Chelsea og Manchester United á Stamford Bridge, og takist Chelsea að vinna í dag verður þar um sannkallaðan stórleik að ræða, en þá gæti Chelsea minnkað forskot United niður í tvö stig fyrir lokaumferðina um næstu helgi. Þá leikur United við West Ham og Chelsea við Everton.
Chelsea og Manchester United eiga síðan eftir að mætast í úrslitaleik bikarkeppninnar á Wembley.