Stjórn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu hefur hafið rannsókn á því hvers vegna bandaríski markvörðurinn Tim Howard lék ekki með Everton gegn Manchester United í úrvalsdeildinni á dögunum. Everton hefur verið með Howard í láni frá United en keypti hann fyrir skömmu og samdi við hann til fimm ára. David Moyes knattspyrnustjóri Everton sagði fyrir leikinn að Howard spilaði ekki leikinn vegna samkomulags við United en stjórn úrvalsdeildarinnar telur að þar gætu reglur hafa verið brotnar.
„Við munum hafa samband við bæði félögin eins fljótt og auðið er til að komast að því hvað gerðist. Þar sem Howard var að fullu orðinn liðsmaður Everton var engin ástæða til þess að hann léki ekki gegn Manchester United. Ef slíkt ákvæði hefði verið sett í samninginn, hefðum við ekki samþykkt það því þar hefði augljóslega verið um áhrif þriðja aðila að ræða. Fyrir okkur var allavega ekki lagður neinn samningur á milli Everton og United um að Howard gæti ekki spilað þann 28. apríl," sgaði Dan Johnson, talsmaður deildarinnar, við blaðið News of the World í dag.
Óreyndur markvörður, Iain Turner, varði mark Everton sem tapaði leiknum á heimavelli, 2:4, eftir að hafa komist í 2:0.