Hermann Hreiðarsson og félagar hans í Charlton eru fallnir úr ensku úrvalsdeildinni eftir 0:2 ósigur gegn Tottenham á heimavelli í næst síðustu umferð deildarinnar. Dimitar Berbatov skoraði fyrra markið á 8. mínútu og Jermain Defoe, fyrrum leikmaður Charlton, negldi síðasta naglann í líkkistu Charlton þegar hann skoraði síðara markið á 89. mínútu.
Hermann Hreiðarsson lék allan tímann fyrir Charlton en Eyjamaðurinn var að falla með fjórða liðinu í ensku úrvalsdeildinni. Hin þrjú liðin sem Hermann féll með voru Crystal Palace, Wimbledon og Ipswich.
Þar með eru tvö lið af þremur fallin úr úrvalsdeildinni, Watford og Charlton, en það ræðst í lokaumferðinni hvort Wigan, West Ham eða Sheffield United fylgi þeim niður. Heiðar Helguson og félagar hans í Fulham eru öruggir. Það var ljóst eftir ósigur Charlton í kvöld.
Tottenham komst með sigrinum upp í sjötta sætið og er á góðri leið með að tryggja sér Evrópusæti en Tottenham á tvo leiki eftir, gegn Blackburn á fimmutdaginn og í lokaumferðinni leikur liðið gegn Manchester City.