Alex Ferguson knattspyrnustjóri nýkrýndra Englandsmeistara í Manchester United hefur gefið út að hann ætli að fá þrjá nýja leikmenn fyrir næsta tímabil. Hann kveðst hafa skýrt stjórn félagsins frá því hverjir það séu en hann muni ekki gefa neitt frekar upp um þá að svo stöddu.
„Við erum búnir að stilla upp þremur leikmönnum sem við viljum fá og David Gill (framkvæmdastjóri Man.Utd) veit hverjir það eru. Eins og allir vita, þá er mikil keppni um bestu leikmennina, og þegar um keppni er að ræða, hækkar verðið, svo við verðum að bíða og sjá hvað gerist," sagði Ferguson og telur að það eigi ekki að vera vandamál að lokka góða leikmenn til félagsins.
„Manchester United hefur alltaf verið vinsælt félag. Það mæta 76 þúsund manns á völlinn hjá okkur á hvern leik og erum með leikmenn sem teljast stórstjörnur, og þar með erum við vel þekktir um allan heim. Þetta er ekki spurningin um að laða leikmenn að sér. Aðal samkeppnin er fólgin í því þegar Chelsea kemur og greiðir 27 milljónir punda fyrir mann á borð við Michael Essien. Þeir geta yfirboðið alla aðra. Við förum eins hljótt með þessi mál og við getum, svo við getum unnið í þeim hratt og hljóðlega. Það er ekki auðvelt, en þannig reynum við að vinna," sagði Ferguson.