José Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea segir að hans menn muni heiðra meistaralið Manchester United á Stamford Bridge á miðvikudagskvöldið og klappa fyrir leikmönnum þess þegar þeir hlaupa inná völlinn í byrjun leiks. Þannig muni þeir endurgjalda United samskonar heiðursathöfn á Old Trafford fyrir tveimur árum þegar Chelsea kom þangað í lokaumferðinni og var þegar orðið enskur meistari.
„Þeir gerðu þetta okkur til heiðurs og við munum launa þeim á sama hátt. Nú er ekki stundin til að afsaka sig, keppnin um meistaratitilinn er á enda og Manchester United er nýr enskur meistari," sagði Mourinho, sem kvaðst viss um að sitt lið hefði náð titlinum, hefði því tekist að vinna leikinn gegn Arsenal í gær.
„Þá hefðum við minnkað muninn í tvö stig fyrir lokaumferðina með því að sigra Mancheser United, og þar með hefði allt getað gerst," sagði Portúgalinn, sem í gær sagði að lið sitt hefði að mörgu leyti sýnt meiri styrk og seiglu í vetur en árin tvö á undan þegar það varð meistari.