Sven-Göran Eriksson, fyrrum landsliðsþjálfari Englands, hefur áhuga á að taka við starfi knattspyrnustjóra Newcastle en Glenn Roeder hætti þar störfum um síðustu helgi. Umboðsmaður Svíans, Athole Still, staðfesti þetta í dag.
Eriksson hætti störfum með enska landsliðið að lokinni úrslitakeppni HM í Þýskalandi síðasta sumar og hefur frá þeim tíma verið orðaður við ýmis félög í Evrópu. Hann er ofarlega á lista yfir þá sem stuðningsmenn Newcastle vilja sjá taka við félaginu, samkvæmt könnunum, en Freddie Shepherd vísaði á bug fregnum í síðasta mánuði um að Eriksson ætti að taka við af Roeder áður en langt um liði.
Eriksson er 59 ára gamall og á þrjátíu ára þjálfaraferil að baki. Hann hefur stýrt Degerfors og IFK Göteborg í Svíþjóð, Benfica í Portúgal og ítölsku félögunum Roma, Fiorentina, Sampdoria og Lazio en hann tók síðan við enska landsliðinu 2001 og þjálfaði það í fimm ár.