Pólski markvörðurinn Lukasz Fabianski gengur til liðs við Arsenal á næstu dögum en hann hefur þegar gengist undir læknisskoðun og samkvæmt Skysports er Arsenal búið að semja við Legia Varsjá um kaup á honum. Umboðsmaður hans staðfesti að samningaviðræður markvarðarins við Arsenal væru á lokastigi.
„Við erum mjög nálægt því að ljúka samningi og samkomulag milli félaganna er þegar í höfn. Við eigum aðeins eftir að ganga frá ákveðnum atriðum varðandi samninga hans við bæði félögin. Hann er búinn að gangast undir læknisskoðun og flýgur í dag heim til Póllands til að spila með Legia en ég á von á að hann komi aftur til London síðar í vikunnni til frekari viðræðna," sagði umboðsmaðurinn Martin Wiesner við Skysports.
Fabianski er 22 ára gamall og hefur verið aðalmarkvörður Legia undanfarin tvö ár. Hann var varamarkvörður pólska landsliðsins í úrslitakeppni HM í Þýskalandi síðasta sumar og hefur spilað 4 A-landsleiki. Hann hefur tvö ár í röð verið valinn besti markvörðurinn í efstu deildinni í Póllandi.