Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United hvíldi marga af sterkustu leikmönnum sínum í leiknum gegn Chelsea í gær en hann segist ætla að tefla fram sínu sterkasta liði í lokaleik úrvalsdeildarinnar gegn West Ham á sunnudaginn.
,,Við verðum að bera virðingu fyrir stöðu annarra liða í botnbaráttunni. Paul Jewell hefur gert frábæra hluti með Wigan og sömuleiðis Neil Warnock með Sheffield United. Þrátt fyrir að Alan Curbishley knattspyrnustjóri West Ham sé góður vinur þá skilur hann mína stöðu og veit að ég mun spila mínum sterkustu leikmönnum fram," segir Ferguson á vef félagsins.
West Ham tryggir tilverurétt sinn í deildinni takist liðinu að fá stig gegn United en vinni Wigan ekki sigur á Sheffield skipta úrslitin í leik West Ham engu máli. West Ham hafði betur gegn Manchester United í fyrri leiknum á Upton Park, 1:0, en það var einmitt fyrsti leikur West Ham undir stjórn Curbishley.