Robbie Fowler, einn ástsælasti leikmaðurinn í sögu enska knattspyrnufélagsins Liverpool, spilar kveðjuleik sinn á Anfield á sunnudaginn þegar Liverpool tekur á móti Charlton í lokaumferð úrvalsdeildarinnar. Honum verður ekki boðinn nýr samningur fyrir næsta tímabil. Rafael Benítez knattspyrnustjóri vonast eftir því að Fowler kveðji með marki á sunnudaginn.
Fowler, sem er 32 ára, er uppalinn í Liverpool og sló í gegn með liðinu á táningsaldri. Hann hefur skorað 183 mörk fyrir félagið, megnið af þeim á sínum yngri árum. Fowler fór til Leeds árið 2001 og síðan til Manchester City en kom aftur til Liverpool í janúar 2006. Hann hefur ekki átt fast sæti í liðinu og Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool staðfesti í dag að ferill Fowlers hjá félaginu væri á enda í vor.
„Við áttum góðan fund og hann skildi vel afstöðu okkar. Hann hefur reynst okkur mjög vel og að sjálfsögðu er ferill hans hjá Liverpool ekki á enda því það eru tveir leikir eftir á tímabilinu. Hann spilar á sunnudaginn og það er gott að stuðningsmenn félagsins fá tækifæri til að sjá hann einu sinni enn á Anfield áður en hann hverfur á brott. Ég vona að honum takist að skora mark frammi fyrir "The Kop" því það væri besta kveðja hans til áhangenda okkar," sagði Benítez við vef Liverpool í dag.
Fowler gengur undir viðurnefninu "Guð" hjá stuðningsmönnum Liverpool og það segir meira um vinsældir hans en mörg orð. Liverpool mætir AC Milan í úrslitaleik Meistaradeild Evrópu í Aþenu þann 23. maí en ólíklegt er að Fowler komi við sögu því Dirk Kuyt, Peter Crouch og Craig Bellamy eru allir á undan honum inn í lið Liverpool.