Tévez er hættur í enskunámi

Það fór vel á með Eggerti Magnússyni og Carlos Tévez …
Það fór vel á með Eggerti Magnússyni og Carlos Tévez þegar sá síðarnefndi var útnefndur leikmaður ársins hjá West Ham. Reuters

Carlos Tévez, argentínski knattspyrnumaðurinn hjá West Ham, kveðst vera svo óviss um framtíð sína í fótboltanum að hann sé hættur í enskunámi sem hann hefur stundað að undanförnu. Það sé alveg á huldu hvort hann haldi áfram hjá félaginu eftir þetta tímabil, og gæti eins verið á leið frá Englandi.

Tévez hefur verið í lykilhlutverki hjá West Ham að undanförnu á góðum endaspretti liðsins í úrvalsdeildinni og það á nú góða möguleika á að bjarga sér frá falli fyrir lokaumferðina á sunnudag.

„Ég er hættur í enskunáminu því ég veit ekki hvar ég verð á næsta tímabili. Það er búið að vera erfitt að laga sig að aðstæðum hér í Englandi. Tungumálið er einn þáttur í því en ég mun læra enskuna ef ég verð áfram í þessari deild. Fótboltinn hérna er allt öðruvísi en í Brasilíu og Argentínu. Ég tel að þetta sé erfiðasta deild í heimi og það er líklega þessvegna sem svo fáir ná að slá í gegn hérna. Það er sparkað í mann í hverjum leik og maður fer heim með sár og marbletti um allan skrokk. Það er sparkað fast í mann, og á marga staði. Varnarmenn í úrvalsdeildinni eru gífurlega sterkir. Og dómararnir leyfa mikið. Þeir stöðva leikinn ekki eins mikið og gert er annars staðar. En ég læt þetta alls ekki á mig fá vegna þess að ég verð betri og sterkari leikmaður við það að ganga í gegnum þetta," sagði Tévez í samtali við dagblaðið The Times í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert