Enska úrvalsdeildarliðið Wigan tilkynnti nú rétt áður að Chris Hutchings er tekinn við knattspyrnustjórastöðu hjá félaginu eftir að Paul Jewell sagði starfi sínu lausu fyrr í dag.
Hutchings var aðstoðarstjóri Wigan en hann tók við liði Bradford við svipaðar kringumstæður fyrir sjö árum. Hann var við stjórnvölinn hjá Bradford í tæpa fimm mánuði og undir hans stjórn vann liðið aðeins einn af 12 leikjum sínum.
,,Hann er afar hæfur til að taka við stjórastarfinu hjá félaginu. Hann hefur verið hægri hönd Paul í langan tíma og þekkir hlutina út og inn," sagði Dave Whelan stjórnarformaður Wigan þegar greindi fréttamönnum frá ráðningu Hutchings.