Derby County er komið í úrslit í umspilinu um sæti í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir sigur á Southampton í vítaspyrnukeppni á Pride Park í Derby í kvöld. Staðan eftir framlengingu var 3:2, Southampton í hag, og liðin voru jöfn samanlagt, 4:4. Regla um mörk á útivelli gildir ekki í umspilinu þannig að leikið var til þrautar.
Derby mætir WBA eða Wolves í úrslitaleik um úrvalsdeildarsæti á Wembley síðar í þessum mánuði en WBA er með forystu, 3:2, fyrir seinni leik liðanna á heimavelli WBA annað kvöld.
Darren Moore kom Derby yfir á 3. mínútu en John Viafara jafnaði fyrir Southampton hálfri mínútu síðar. Viafara var aftur á ferðinni fyrir Southampton á 54. mínútu en félagi hans, Leon Best, skallaði boltann í eigið mark á 66. mínútu og staðan 2:2. Allt benti til þess að Derby væri komið áfram en á 89. mínútu skoraði fyrrum leikmaður liðsins, Gregorsz Rasiak, fyrir Southampton, 3:2, og þar með þurfti að framlengja.
Ekkert mark var skorað í framlengingunni.
Í vítaspyrnukeppninni mistókst tveimur leikmönnum Southampton að skora. Leon Best skaut framhjá úr fyrstu spyrnunni og Inigo Idiakez, fyrrum leikmaður Derby, skaut framhjá í fjórðu umferð. Derby skoraði úr öllum sínum spyrnum.