Mourinho sendir enn skot á Ronaldo

José Mourinho á æfingu Chelsea í dag. Sálfræðistríðið fyrir úrslitaleikinn …
José Mourinho á æfingu Chelsea í dag. Sálfræðistríðið fyrir úrslitaleikinn er hafið hjá honum. Reuters

José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, gat ekki stillt sig um að sneiða aðeins að landa sínum, portúgalska kantmanninum Cristiano Ronaldo, þegar hann ræddi við fjölmiðla í dag um úrslitaleik bikarkeppninnar gegn Manchester United á Wembley. Hann kvaðst vonast eftir því að enginn leikaraskapur yrði á boðstólum á þessum nýja og glæsilega leikvangi, og hann óskaði jafnframt Steve Bennett dómara þess að hann sæist ekki í leiknum.

Mourinho var orðljótur í garð Ronaldos fyrir nokkrum vikum, kallaði hann þá lygara og hæddist að lítilli menntun piltsins. Hann baðst síðan afsökunar á þeim ummælum sínum.

„Ég vona að Ronaldo njóti leiksins rétt eins og ég vonast til þess að njóta hans, og að Portúgal megi vera stolt af okkur báðum. Ég vona að hann spili vel, meiðist ekki, og að hann verði, eins og sæmir góðum leikmanni, heiðarlegur gagnvart mótherjum sínum. Ég yrði mjög vonsvikinn ef einhverjir leikmenn tækju uppá því að vera með leikaraskap eða æsa mótherjana upp og reyna að koma á þá rauðum spjöldum," sagði Mourinho.

Um dómgæsluna sagði hann: „Steve Bennett er mjög reyndur og hefur átt mjög gott tímabil. Ég tel að dómari sem lætur lítið fyrir sér fara sé besti dómarinn. Mér þætti það mjög leitt ef þetta verður ekki góður og drengilegur úrslitaleikur, án vandamála, með góðum sigurvegara og stoltu tapliði," sagði Mourinho.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert