Sheffield United leggur fram kröfu vegna West Ham

Carlos Tévez bjargaði West Ham frá falli á lokasprettinum en …
Carlos Tévez bjargaði West Ham frá falli á lokasprettinum en er umdeildur. Reuters

Enska knattspyrnufélagið Sheffield United lagði í dag fram kröfu til stjórnar úrvalsdeildarinnar vegna ákvarðanar hennar um að sekta West Ham en draga ekki stig af liðinu vegna félagaskiptanna hjá Carlos Tévez síðasta haust. Sheffield United krefst þess að sérstakur dómstóll verði skipaður til að úrskurða í málinu.

Talsmaður úrvalsdeildarinnar staðfesti í dag að krafa Sheffield United hefði borist og hún væri í skoðun. Sheffield United krefst þess að dómstóllinn verði skipaður fyrir vikulokin og ákvörðun hans liggi fyrir innan fjögurra vikna. Á meðan verði allur undirbúningur fyrir næsta keppnistímabil lagður til hliðar.

Sheffield United féll eftir ósigur gegn Wigan, 1:2, í lokaumferð úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn - vegna þess að á meðan tókst West Ham að sigra Manchester United á Old Trafford, 1:0. Ef þrjú stig eða fleiri yrðu dregin af West Ham kæmi það í hlut liðsins að falla ásamt Charlton og Watford.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert