Whelan krefst afsagna vegna Tévez-málsins

Dave Whelan og hans menn í Wigan björguðu sér frá …
Dave Whelan og hans menn í Wigan björguðu sér frá falli á síðustu stundu en Whelan er ekki ánægður. Reuters

Dave Whelan, stjórnarformaður enska knattspyrnufélagsins Wigan Athletic, hefur sent stjórn úrvalsdeildarinnar bréf þar sem hann sakar Richard Scudamore, framkvæmdastjóra deildarinnar, og Dave Richards, formann, um vanrækslu í starfi og skorar á þá að segja af sér. Hann segir að þeir hafi höndlað mál West Ham og Carlos Tévez afar illa.

Óháð nefnd á vegum stjórnar deildarinnar úrskurðaði að West Ham hefði brotið tvenns konar reglur við kaupin á Carlos Tévez og Javier Mascherano síðasta haust og sektaði félagið um 5,5 milljónir punda, nálægt 700 milljónum króna, en dró ekki stig af liðinu. Sú ákvörðun hefur farið fyrir brjóstið á þeim félögum sem börðust við West Ham um áframhaldandi sæti í deildinni.

Whelan segir að vinnulag stjórnarinnar í málinu hafi verið afar ófullnægjandi og helstu ákvarðanir hafi verið teknar á símafundum í stað þess að ræða málin á opnum og ítarlegum fundum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert