Dave Whelan, stjórnarformaður enska knattspyrnufélagsins Wigan Athletic, hefur sent stjórn úrvalsdeildarinnar bréf þar sem hann sakar Richard Scudamore, framkvæmdastjóra deildarinnar, og Dave Richards, formann, um vanrækslu í starfi og skorar á þá að segja af sér. Hann segir að þeir hafi höndlað mál West Ham og Carlos Tévez afar illa.
Óháð nefnd á vegum stjórnar deildarinnar úrskurðaði að West Ham hefði brotið tvenns konar reglur við kaupin á Carlos Tévez og Javier Mascherano síðasta haust og sektaði félagið um 5,5 milljónir punda, nálægt 700 milljónum króna, en dró ekki stig af liðinu. Sú ákvörðun hefur farið fyrir brjóstið á þeim félögum sem börðust við West Ham um áframhaldandi sæti í deildinni.
Whelan segir að vinnulag stjórnarinnar í málinu hafi verið afar ófullnægjandi og helstu ákvarðanir hafi verið teknar á símafundum í stað þess að ræða málin á opnum og ítarlegum fundum.