Carlos Tévez, argentínski knattspyrnumaðurinn sem leikur með West Ham, sagði á fréttamannafundi í Buenos Aires í dag að það væri orðið tímabært fyrir sig að ganga til liðs við eitthvert af stórliðum Evrópu. Það væri þó West Ham sem hefði forgang hjá sér í augnablikinu.
Tévez kom til West Ham síðasta haust ásamt landa sínum, Javier Mascherano, og félagaskipti þeirra hafa verið stöðugt í fréttunum síðan. West Ham var sektað um 700 milljónir króna vegna þeirra og enn er verið að krefjast þess að stig verði tekin af félaginu. Mascherano var lánaður til Liverpool í janúar en hann náði sér aldrei á strik með West Ham. Tévez er hinsvegar vinsælasti leikmaður félagsins, átti stærstan þátt í að það bjargaði sér frá falli á ævintýralegan hátt og var kjörinn leikmaður ársins á dögunum, af stuðningsmönnum West Ham.
Tengsl hans við Kia Joorabchian, íranska kaupsýslumanninn sem reyndi að kaupa West Ham í haust en beið lægri hlut fyrir Eggert Magnússyni og Björgólfi Guðmundssyni, eru mikil en Kia á samningsrétt leikmannsins. Tévez hefur verið m.a. orðaður við Real Madrid síðustu daga.
„Fyrst vil ég segja að ég veit ekkert um áhuga Real Madrid, en ef orðrómur er í gangi, hlýtur einhver fótur að vera fyrir því. Deildirnar á Spáni og Ítalíu eru enn í gangi og í Englandi eiga stóru liðin enn eftir bikarúrsltialeik, svo ég tel að á þessari stundu sé ekki komið að því að þau geri tilboð í leikmenn. En hvað sem gerist, vil ég taka fram að West Ham hefur forgang hjá mér. Mér finnst þó vera kominn tími til fyrir mig að skipta um félag og fara í evrópskt stórveldi.
Ég hef þegar rætt það við umboðsmann minn og við Kia, en endurtek að West Ham hefur forgang því þar hafa menn reynst mér stórkostlega. Þar var mér og Mascherano tekið á frábæran hátt frá fyrsta degi okkar í Englandi. Kia er vinur minn, og vinur fjölskyldu minnar, og á samningsrétt minn, og við ákveðum alltaf í sameiningu þau skref sem ég tek á mínum ferli," sagði Tévez á fundinum í heimalandi sínu.