José Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea sagði eftir sigurinn á Manchester United í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar í dag að hann ætlaði sér að varðveita verðlaunapeninginn að þessu sinni og ekki kasta honum frá sér. Þegar Chelsea varð enskur meistari í fyrra kastaði hann verðlaunapeningi sínum til stuðningsmanna félagsins.
„Þessum peningi fleygi ég ekki, hann er mér afar dýrmætur. Nú höfum við unnið alla titla í enska fótboltanum á þremur árum. Leikmenn okkar verðskulda það svo sannarlega eftir gífurlega erfitt tímabil og þetta er stund sem allir eiga að njóta til hins ítrasta. Ég tel að við verðskuldum fyllilega að fara í fríið með þennan bikar og verðlaunapeninga," sagði Mourinho, sem lyfti sex fingrum til stuðningsmanna liðsins við verðlaunaafhendinguna, til marks um þá sex titla sem Chelsea hefur unnið undir hans stjórn, á þremur árum.
Mourinho hvarf stundarkorn af velli um leið og flautað var til leiksloka en kom svo aftur til að fagna með leikmönnum sínum. Hann sagðist hafa farið til að hringja í börnin sín sem hefðu ekki komist á þennan úrslitaleik.