Enskur auðkýfingur kaupir Newcastle

Enskur auðkýfingur, Mike Ashley, keypti í dag 41,6 prósenta hlut í knattspyrnufélaginu Newcastle af John Hall, fyrrum stjórnarformanni og lífstíðarforseta félagsins, og fjölskyldu hans. Ashley hefur jafnframt boðið öðrum hluthöfum í Newcastle að kaupa þeirra hluti á sama verði, sem er 100 pence á hlut.

„Félagið er frábærlega byggt upp og þar eiga John og stjórn félagsins stærstan heiður. Newcastle er með stórkostlegan bakgrunn og sögu og ástríða stuðningsmanna félagsins er víðfræg. Ég er viss um að þeir eru, eins og ég, afar spenntir fyrir því sem bíður okkar á næsta tímabili undir forystu nýs knattspyrnustjóra," sagði Ashley en Sam Allardyce tók á dögunum við sem knattspyrnustjóri Newcastle.

John Hall keypti Newcastle árið 1992 þegar félagið var nánast gjaldþrota og við botn næstefstu deildar. „Á meðan ég stýrði félaginu var ég í forystu fyrir þeim hópi sem byggði félagið upp á nútímalegan hátt og kom því á þann stall sem það er í dag. Nú er tímabært fyrir mig að víkja til hliðar og láta aðra um að taka þátt í samkeppninni á alheimsmarkaðnum. Ashley er lykilmaður á þeim velli og rétti maðurinn til að stýra félaginu inn í nýja tíma," sagði John Hall í dag.

Newcastle var stofnað árið 1881 og hefur orðið enskur meistari fimm sinnum og bikarmeistari sex sinnum. Það er hinsvegar óralangt síðan félagið vann þessa titla en það varð síðast enskur meistari árið 1927 og bikarmeistari síðast árið 1955. Félagið hefur ekki unnið stóran titil síðan það vann Borgakeppni Evrópu, sem nú heitir UEFA-bikarinn, árið 1969 en lengst náð öðru sæti úrvalsdeildarinnar árin 1996 og 1997.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert