Ísraelski knattspyrnumaðurinn Yossi Benayoun skrifaði í dag undir nýjan samning við Eggert Magnússon og hans menn hjá West Ham og gildir hann til næstu fimm ára, eða til vorsins 2012. Eggert lýsir yfir mikilli ánægju með samninginn.
Frá þessu var skýrt á vef West Ham nú eftir hádegið og þar er haft eftir Benayoun að hann sé afar ánægður með að málið sé í höfn. Hann er Eggerti afar þakklátur.
„Stjórnarformaður West Ham er afar metnaðarfullur og ég vil þakka honum sérstaklega hve hratt og vel samningaviðræðurnar gengu. Hann og knattspyrnustjórinn sannfærðu mig um að þeir vildu halda mér og vonandi get ég launað þeim með því að standa mig vel, og ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að standa undir þeirra væntingum," asgði Benayoun á vef West Ham.
„Yossi leikur stórt hlutverk í framtíðaráætlunum okkar og það er mjög ánægjulegt að hafa samið við hann til næstu fimm ára. Við stefnum á að bæta nýjum og spennandi leikmönnum í okkar hóp en verðum um leið að sjá til þess að við höldum þeim hæfileikaríku piltum sem þegar eru til staðar," sagði Eggert við vef West Ham.
Benayoun er 27 ára gamall miðjumaður sem lék með Maccabi Haifa í heimalandi sínu en síðan með Racing Santander á Spáni frá 2002 til 2005. West Ham keypti hann þaðan sumarið 2005 og Benayoun á 63 deildaleiki að baki með Lundúnaliðinu. Hann hefur spilað 49 landsleiki fyrir Ísrael og skorað í þeim 11 mörk.