Alexei Lalas forseti bandaríska knattspyrnuliðsins LA Galaxy útilokar ekki á að David Beckham verði lánaður til liðs í Evrópu þegar keppni í bandarísku atvinnumannadeildinni, MLS, lýkur í nóvember.
Frank Yallop þjálfari LA Galaxy, sem Beckham gengur í raðir frá Real Madrid í sumar, hefur til þessa sagt að ekki komi til greina að lána Beckham en Lalas er greinilega á öðru máli.
Orðrómur fór strax af stað um að Beckham yrði hugsanlega lánaður eftir að hann var valinn að nýju í enska landsliðið. Með því ætti hann möguleika á að leika með því í úrslitakeppni Evrópumótsins á næsta ári af því gefnu að Englendingar vinni sér keppnisréttinn á því móti.
Lið eins og Newcastle og Tottenham hafa helst verið nefnd til sögunnar en víst er að mörg lið í Evrópu myndu ekki slá hendinni á móti því að fá Beckham, sem hefur farið á kostum með Real Madrid síðustu vikurnar.