West Ham United hefur náð samkomulagi við Newcastle um kaup á miðvallarleikmanninum Scott Parker. Ekki kemur fram hvert kaupverðið er en talið er að það sé um 8,5 milljónir punda, ríflega 1 milljarður króna. Parker er ætlað að fylla skarð fyrirliðans Nigel Reo-Coker sem nýlega fór fram á að verða seldur frá félaginu.
Alan Curbishley knattspyrnustjóri West Ham lagði þunga áherslu á að fá Parker til félagsins en Parker lék undir hans stjórn hjá Charlton. Parker er 26 ára gamall, uppalinn hjá Charlton, og lék með aðalliði félagsins frá 1997 til 2004. Þá var hann seldur til Chelsea en náði ekki að festa sig í sessi og Newcastle keypti hann þaðan sumarið 2005.
Talið er að Sam Allardyce, nýráðinn knattspyrnustjóri Newcastle, ætli að fylla skarð Parkers með Joey Barton sem Manchester City hefur ákveðið að losa sig við.