Mourinho: Ég er ósnertanlegur hjá Chelsea

José Mourinho er öruggur um sig hjá Chelsea.
José Mourinho er öruggur um sig hjá Chelsea. Reuters

José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, sagði í dag að hann væri ósnertanlegur hjá félaginu. Hann hefði algjört frelsi til að sinna sínu starfi og ekki einn einasti maður reyndi að skipta sér að því hvernig hann stýrði liðinu, ekki einu sinni eigandinn forríki Roman Abramovich.

„Roman er höfuðpaurinn hjá félaginu, hann hefur alla þræði í sínum höndum. Ég er knattspyrnustjórinn sem ber ábyrgð á liðinu, og á því sviði finnst mér ég vera ósnertanlegur. Enginn vill blanda sér í mín mál, ég hef algjört frelsi til að taka allar ákvarðanir sem varða liðið, aðferðafræðina, leikaðferðina og liðsvalið. Þetta frelsi er mér dýrmætt og ég er afar hamingjusamur með það - og herra Abramovich á félagið," sagði Mourinho við Sky Sports í dag.

Talsverð spenna ríkti á milli Mourinhos og Abramovichs í vetur og var hún sérstaklega tengd kaupum Chelsea á Andriy Shevchenko frá AC Milan og síðan köflóttri frammistöðu hans með liðinu. Mourinho sagðist vonast eftir betri frammistöðu Úkraínumannsins næsta vetur. „Ég vil fá meira frá Ballack, ég vil fá mikið meira frá Sheva. Hann er ekki gamall, heldur ekki ungur, en hann er á góðum aldri með mikla reynslu og í toppformi líkamlega. Ef hann er á réttu róli hjá okkur og hefur metnað fyrir því að bæta sig, sem ég tel vera, þá eru allir tilbúnir til að hjálpa honum til þess að verða betri leikmaður," sagði Mourinho sem nú er á ferð um Afríku að sinna mannúðarmálum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert