Parry ósáttur við skýrsluna frá UEFA

Stuðningsmenn Liverpool hafa verið verðlaunaðir fyrir framkomu sína, segir Rick …
Stuðningsmenn Liverpool hafa verið verðlaunaðir fyrir framkomu sína, segir Rick Parry. Reuters

Rick Parry, framkvæmdastjóri enska knattspyrnufélagsins Liverpool, lýsti í dag yfir óánægju með skýrslu UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, en eins og fram kom í gær er Liverpool samkvæmt henni með verstu áhorfendur á leikjum á erlendri grundu undanfarin fjögur ár.

William Gaillard, talsmaður UEFA, tilgreindi sérstaklega úrslitaleikinn í Meistaradeild Evrópu í Aþenu í síðasta mánuði og sagði að framkoma stuðningsmanna Liverpool þar hefði verið ámælisverð.

„Allir sem voru í Aþenu sáu hversu illa var haldið utan um málin þar. Þessi nýjustu ummæli UEFA ættu ekki að draga athyglina frá því. Það sem vekur mesta furðu mína varðandi ummæli Gaillards er að kvöldið fyrir úrslitaleikinn sagði hann með réttu að stuðningsmenn Liverpool hefðu orð á sér fyrir góða hegðun. Gleymum því ekki að þessir stuðningsmenn sem Gaillard segir nú að séu þeir verstu í Evrópu, fengu mikið hrós frá forseta UEFA, Michel Platini, eftir sigur okkar á Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildarinnar mánuði áður. Þeim var hrósað fyrir góða hegðun í úrslitaleiknum í Istanbúl 2005 og voru heiðraðir af UEFA sem stuðningsmenn ársins eftir úrslitaleik UEFA árið 2001," sagði Rick Parry.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert