Harewood á förum frá West Ham

Marlon Harewood fagnar eftir eitt mikilvægasta mark sitt fyrir West …
Marlon Harewood fagnar eftir eitt mikilvægasta mark sitt fyrir West Ham, gegn Middlesbrough í undanúrslitum bikarsins 2006. AP

Marlon Harewood staðfesti í dag að hann væri á förum frá enska úrvalsdeildarliðinu West Ham, í kjölfarið á fundi með Alan Curbishley, knattspyrnustjóra félagsins. Þrjú félög, Portsmouth, Manchester City og Wigan, hafa þegar sýnt áhuga á að fá hann í sínar raðir.

„Það er tímabært fyrir mig að yfirgefa West Ham. Ég hef átt fjögur góð ár hjá félaginu en nú er rétti tíminn til að breyta til. Ég ræddi við knattspyrnustjórann og hann vill greinilega fá aðra leikmenn til félagsins. Þannig gengur þetta í fótboltanum," sagði Harewood.

Hann er 27 ára gamall sóknarmaður og skoraði 16 mörk fyrir West Ham tímabilið 2005-2006, og gerði þá m.a. sigurmark liðsins í undanúrslitum bikarkeppninnar gegn Middlesbrough. Í vetur náði Harewood hinsvegar aðeins að skora þrjú mörk fyrir West Ham.

Harewood er ættaður frá Barbados en fæddur í Englandi og hann spilaði með Nottingham Forest í sjö ár, frá 17 ára aldri, og gerði 51 mark í 181 leik fyrir félagið. Hann var um skeið að láni hjá Haka í Finnlandi og hjá Ipswich en West Ham keypti hann af Forest fyrir 500 þúsund pund síðla árs 2003. Harewood skoraði 47 mörk í 142 deildaleikjum fyrir West Ham.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert