Platini dregur til baka yfirlýsingar um stuðningsmenn Liverpool

Michael Platini hafði í nógu að snúast í dag en …
Michael Platini hafði í nógu að snúast í dag en þessi mynd var tekin þegar hann opnaði sýningu í Brussel. Reuters

Michel Platini, forseti UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, dró í kvöld til baka fyrri yfirlýsingar sambandsins um að Liverpool ætti verstu stuðningsmenn í Evrópu. Það var túlkun Williams Gaillards, talsmanns UEFA, á skýrslu um framkomu áhorfenda á Evrópuleikjum á erlendri grundu undanfarin fjögur ár.

Richard Caborn, íþróttamálaráðherra Bretlands, gekk á fund Platinis vegna málsins og Platini sagði að honum loknum. „Nei, Liverpool á ekki verstu stuðningsmenn í Evrópu. Það er staðreynd, þeir eru ekki verstir. Þetta er gömul saga, málið er bara að fleiri stuðningsmenn fylgja enskum liðum í leiki erlendis en tíðkast í öðrum löndum. Þetta snýst ekki um hvort einn hópur stuðningsmanna sé góður og annar slæmur, það er ekki hægt að gefa út slíkar yfirlýsingar," sagði Platini, sem sagði að ekki hefði verið staðið nægilega vel að málum varðandi öryggisgæslu á úrslitaleiknum í Meistaradeild Evrópu þegar Liverpool lék við AC Milan í Aþenu.

Platini samþykkti tillögu Caborns um að settur yrði upp vinnuhópur til að finna hentuga leikvanga fyrir úrslitaleiki í Meistaradeildinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert