Real Madrid í viðræðum um Arjen Robben

Arjen Robben er í sigtinu hjá Real Madrid.
Arjen Robben er í sigtinu hjá Real Madrid. Reuters

Ramon Calderon, forseti spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid, sagði í dag að félag sitt ætti í viðræðum við Chelsea um kaup á hollenska kantmanninum Arjen Robben, og við leikmanninn sjálfan.

„Við erum að ræða við Chelsea og leikmanninn sjálfan, þetta er á frumstigi en við vonumst til þess að fá hann í okkar raðir. Þegar ég sóttist eftir forsetaembættinu var eitt af því sem ég ætlaði mér að gera að fá Robben til okkar, og það er enn í gangi," sagði Calderon.

Robben, sem er 23 ára gamall, hefur átt í viðræðum við Chelsea um nýjan samning. Hann hefur leikið með enska félaginu frá 2004 en þá keypti það hann frá PSV Eindhoven fyrir 12 milljónir punda. Robben hefur átt í talsverðum vandræðum vegna meiðsla síðustu misserin og misst talsvert úr af þeim sökum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert