Sérfræðingur í heilsufari tengdu flugi hefur varað enska knattspyrnumanninn David Beckham við því að hann eigi á hættu að fá blóðtappa í fót ef hann fljúgi á milli Los Angeles og London í alla leiki enska landsliðsins seinni hluta ársins. Beckham gengur til liðs við LA Galaxy í sumar en er tilbúinn til að leika áfram með enska landsliðinu í undankeppni Evrópumótsins.
Sérfræðingurinn, Farrol Kahn, sagði við BBC í dag að með fluginu yrði Beckham í áhættuhópi, sérstaklega þar sem viðbúið væri að eftir fótboltaleiki væri hann með sár á fótum eða mar. Þekkt væri að fólk fengi blóðtappa í fót á löngum flugferðum, ekki bara eldra fólk, heldur fólk á öllum aldri. Fengi Beckham blóðtappa af þessum sökum væri ferli hans sem knattspyrnumanns lokið.
Kahn sagði að frekari aukaverkanir myndu fylgja svona löngum flugferðum sem ekki væru góðar fyrir íþróttamann. „Það hafa verið gerðar rannsóknir á hermönnum, ungum karlmönnum, sem hafa flogið langar vegalengdir og síðan tekið þátt í bardögum. Sprettharka þeirra minnkaði um 10 prósent, burðargeta um 9 prósent og ákvarðanataka um 15 prósent. Síðan hafa rannsóknir sýnt að það eru sjö sinnum meiri líkur á því að þeir sem fljúga fái kvef og aðra vírusa en aðrir," sagði Kahn.
Talið er að Beckham þurfi að eyða um 200 klukkustundum á flugi á milli Los Angeles og London ef hann spilar alla landsleiki Englands á árinu, og þá þarf hann að fljúga mikið innan Bandaríkjanna til að spila með LA Galaxy, m.a. nokkrar ferðir á milli vesturstrandar og austurstrandar til að spila í New York, Washington og Boston.