Enskir fjölmiðlar fullyrða í dag að West Ham sé á höttunum á eftir Craig Bellamy, sóknarmanni Liverpool, og sé tilbúið til að greiða fyrir hann 6 milljónir punda, og borga honum 70 þúsund pund, um 8,7 milljónir króna, í vikulaun. Talið er fullvíst að Bellamy verði látinn fara frá Liverpool í sumar þar sem hann sé ekki í framtíðarplönum Rafael Benítez knattspyrnustjóra.
Bellamy hefur einnig verið orðaður við Newcastle og Blackburn, tvö félög sem hann hefur áður leikið með, sem og Aston Villa. West Ham er þó sagt bjóða best hvað launin varðar.
Bellamy er 27 ára gamall og tók á dögunum við stöðu landsliðsfyrirliða Wales eftir að Ryan Giggs lagði landsliðsskóna á hilluna.