Manchester United í viðræðum um Carlos Tévez?

Carlos Tévez er enn í fréttunum og nú orðaður við …
Carlos Tévez er enn í fréttunum og nú orðaður við Manchester United. Reuters

Netútgáfa enska dagblaðsins Daily Mail sagði í kvöld að Manchester United væri í viðræðum við fulltrúa argentínska knattspyrnumannsins Carlos Tévez um að fá hann til félagsins fyrir næsta keppnistímabil. Tévez lék með West Ham síðasta vetur en óvissa hefur ríkt um framhaldið hjá honum, ekki síst vegna tengsla hans við Kia Joorabchian, íranska kaupsýslumanninn sem ætlaði að kaupa West Ham en missti af því til Eggerts Magnússonar og Björgólfs Guðmundssonar.

Daily Mail segir að rætt sé um að United fái Tévez lánaðan út næsta tímabil en fyrst þurfi að eyða allri óvissu um stöðu leikmannsins, sem hefur valdið kærumálum og varð til þess að West Ham var dæmt í 700 milljón króna sekt í vetur. Fyrirtæki Joorabchians á samningsrétt Argentínumannsins en West Ham rifti ákvæði um það sem var í samningnum um Tévez, og fékk fyrir vikið að nota leikmanninn áfram út tímabilið. Joorabcian er sagður krefjast þess að það ákvæði verði sett inn í samninginn á nýjan leik.

Ennfremur er sagt í fréttinni að Joorabchian hafi ekki ennþá hitt Eggert Magnússon stjórnarformann West Ham til að fá mál Tévez á hreint. Fundi þeirra sem fram hafi átt að fara í síðustu viku hafi verið frestað. Joorabchian sé í Suður-Ameríku um þessar mundir ásamt Tévez, sem býr sig undir að spila með Argentínumönnum í Ameríkubikarnum.

Eggert Magnússon svaraði spurningum enskra fjölmiðla um Tévez í vikunni á þá leið að Tévez væri samningsbundinn West Ham til næstu þriggja ára. Hann væri viss um að hann yrði áfram hjá félaginu.

Beðið er niðurstöðu frá sérstökum dómstóli sem stjórn úrvalsdeildarinnar skipaði til að úrskurða um kærumál Sheffield United, sem krefst þess að West Ham verði svipt stigum fyrir að tefla Tévez fram. Daily Mail segir að ef dæmt verði West Ham í óhag, verði Tévez ekki lengur bundinn af samningnum við West Ham.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert