Leikmannasamtökin reyna að leysa mál Bartons

Joey Barton er ekki enn orðinn leikmaður Newcastle.
Joey Barton er ekki enn orðinn leikmaður Newcastle. Reuters

Joey Barton hefur enn ekki getað skrifað undir samning við enska knattspyrnufélagið Newcastle, enda þótt samþykki allra aðila fyrir kaupum félagsins á honum frá Manchester City liggi fyrir. Barton telur að hann eigi að fá 300 þúsund punda aukagreiðslu frá félaginu en forráðamenn City neita að borga. Samtök enskra atvinnuknattspyrnumanna hafa skorist í leikinn og reyna að leysa málið.

Barton og hans talsmenn telja að samkvæmt samningi eigi hann rétt á þessari greiðslu þar sem hann hafi ekki óskað sjálfur eftir því að vera seldur. City setti Barton á sölulista eftir að hann barði félaga sinn Ousmane Dabo til óbóta á æfingu og heimilaði honum að fara fyrir þær 5,5 milljónir punda sem ákvæði voru um í samningi hans.

Forráðamenn City hafa ekki viljað greiða Barton þessa upphæð á þeim forsendum að enginn hafi neytt hann til að fara frá félaginu.

Sam Allardyce knattspyrnustjóri Newcastle er æfur yfir því að geta ekki gengið strax frá samningum við Barton. „Þetta er út í hött, ég er stórhneykslaður og vil að málið verði leyst. Ég skil ekkert í þessu því City þurfti ekkert að greiða fyrir Barton, sem er alinn upp hjá félaginu og nú seldur fyrir 5,5 milljónir punda. En ég vona að Joey geti greitt úr þessu sem fyrst," sagði Allardyce.

Mick McGuire hjá leikmannasamtökunum sagði að unnið væri að því að leysa málið á farsælan hátt og rætt hefði verið við framkvæmdastjóra City, Joey Barton og umboðsmann hans í því skyni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert