Darren Bent hafnaði tilboði West Ham

Darren Bent fer ekki til West Ham.
Darren Bent fer ekki til West Ham. Reuters

Darren Bent, sóknarmaður Charlton Athletic og enska landsliðsins í knattspyrnu, hafnaði í kvöld tilboði frá Eggerti Magnússyni og félögum í West Ham. Í gærkvöld náðu Charlton og West Ham samkomulagi um kaupverð en eftir viðræður í dag ákvað Bent að fara ekki á Upton Park.

„Við settum verð á Darren og West Ham var eina félagið sem var tilbúið til að greiða þá upphæð. Í morgun gáfum við þeim leyfi til að ræða við Darren, sem þeir gerðu, en hann ákvað að ganga ekki til liðs við West Ham. Við hlökkum til að hafa Darren í okkar liði í 1. deildinni næsta vetur, sem gefur okkur frábæra möguleika á að endurheimta sætið í úrvalsdeildinni," sagði Peter Varney, framkvæmdastjóri Charlton.

Talsmaður West Ham staðfesti við BBC í kvöld að ekki hefði þokast í viðræðunum. „Það var komið samkomulag á milli West Ham og Charlton um kaupverð en það náðist ekki samkomulag við leikmanninn. West Ham hefur verið að skoða ýmsa möguleika varðandi sóknarmenn og nú mun félagið einbeita sér að öðrum kostum," sagði talsmaður West Ham.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert