Stjórn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu hefur tekið til athugunar ábendingar um að Sheffield United kunni að hafa brotið sömu reglur og félagið vill að West Ham verði refsað harðar fyrir en áður og fellt úr úrvalsdeildinni. Það eru kaup Watford á Steve Kabba frá Sheffield United sem um ræðir en honum var í framhaldi af þeim meinað að taka þátt í leik liðanna, enda þótt hann væri að fullu orðinn leikmaður Watford.
„Núgildandi reglur kveða skýrt á um það að um leið og gengið er frá endanlegri sölu á leikmanni er ekki hægt að semja á neinn hátt um að hann geti ekki spilað gegn sínu fyrra félagi. Athygli okkar var vakin á máli Steve Kabba seint á föstudaginn og við munum skoða okkar skjöl og óska eftir skýringum frá báðum félögum í næstu viku," sagði talsmaður úrvalsdeildarinnar en Watford keypti Kabba af Sheffield United í janúar.
Sheffield United hefur krafist þess að West Ham verði svipt stigum vegna félagaskipta Carlos Tévez síðasta haust en stjórn úrvalsdeildarinnar hafði áður sektað West Ham um 700 milljónir króna en ákvað að svipta félagið ekki stigum. Þegar upp var staðið í vor hélt West Ham sæti sínu í úrvalsdeildinni en Sheffield United féll, og síðarnefnda félagið hefur ekki sætt sig við þá niðurstöðu.