Dómstóllinn sem stjórn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu skipaði til að komast að niðurstöðu í máli Sheffield United gegn West Ham kom saman í dag. Þá kom í ljós að Liverpool styður Sheffield United í málinu því Rick Parry, framkvæmdastjóri Liverpool, var kallaður fyrir dómstólinn sem vitni á vegum Sheffield United.
Forráðamenn Sheffield United höfðu áður lýst því yfir að þeir nytu stuðnings eins af stóru félögunum í úrvalsdeildinni.
Dómstóllinn fer yfir alla þætti málsins í dag og reiknað er með að hann kveði upp úrskurð á morgun. Þar er til umfjöllunar hvort sú niðurstaða úrvalsdeildarinnar að sekta West Ham um 700 milljónir króna en svipta liðið ekki stigum fyrir að standa ólöglega að félagaskiptum Carlos Tévez hafi verið lögmæt.
Sheffield United krefst þess að halda sæti sínu í úrvalsdeildinni, hvort sem það verði með því að liðinu verði bætt við sem 21. liði deildarinnar, eða West Ham fellt niður í 1. deild í staðinn.