Finnski markvörðurinn Jussi Jääskeläinen er ósáttur hversu hægt miðar í samningaviðræðum hans og Bolton um nýjan samning en umboðsmaður Finnans neitar því að Jääskeläinen hafi farið fram á að fá 60.000 pund í vikulaun, 7,5 milljónir króna.
Jääskeläinen á eitt ár eftir af samningi sínum við Bolton en hann hafnaði nýju samningstilboði frá félaginu í síðustu viku. Þegar í stað var hann orðaður við Sunderland, Manchester United og Aston Villa en Jääskeläinen hefur verið í herbúðum Bolton í áratug og hefur verið í hópi bestu markvarða í ensku úrvalsdeildinni síðustu árin.