Quagliarella spenntur fyrir Manchester United

Fabio Quagliarella fagnar eftir að hafa skorað fyrir Ítali gegn …
Fabio Quagliarella fagnar eftir að hafa skorað fyrir Ítali gegn Litháen fyrr í þessum mánuði. Reuters

Ítalski knattspyrnumaðurinn Fabio Quagliarella, sem leikur með Sampdoria, sagði við ítalska íþróttadagblaðið Gazzetta dello Sport að ensku meistararnir Manchester United hefðu gert nýtt og spennandi tilboð í sig. Sampdoria hafnaði tilboði frá United í leikmanninn fyrir mánuði síðan en sagt er að það hafi hljóðað uppá 10 milljónir punda.

„Þetta virðist mjög spennandi tilboð eftir að þeir hækkuðu það. Manchester United er stórlið og ef málin þróast á þann veg, færi ég ánægður í ensku úrvalsdeildina. Það er heillandi og mögnuð keppni," sagði Quagliarella við blaðið.

Quagliarella hefur átt skjótan frama í ítalska fótboltanum. Sampdoria keypti þennan 23 ára gamla framherja frá Ascoli síðasta sumar en Udinese á reyndar einnig hlut í honum. Hann skoraði 13 mörk í 35 leikjum fyrir Sampdoria í vetur og hann var valinn í ítalska landsliðið í fyrsta skipti. Quagliarella skoraði bæði mörk Ítala þegar þeir sigruðu Litháen, 2:0, í undankeppni EM fyrr í þessum mánuði.

Forráðamenn Sampdoria hafa sagt að það þyrfti mjög sérstakt tilboð að koma til svo að Quagliarella færi frá félaginu í sumar. Hann kveðst sjálfur mjög ánægður hjá Sampdoria og vera meira en svo tilbúinn til að spila þar áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert