Alan Shearer, fyrrum fyrirliði Newcastle og enska landsliðsins í knattspyrnu vill ekki fyrir nokkra muni fá velska framherjann Craig Bellamy aftur til félagsins. Bellamy, sem leikur með Liverpool, hefur verið orðaður við Newcastle á ný en Shearer varar Sam Allardyce knattspyrnustjóra harðlega við því.
Bellamy fór frá Newcastle fyrir tveimur árum eftir stormasama dvöl þar sem hann lenti m.a. uppá kant við Graeme Souness, þáverandi knattspyrnustjóra, og gagnrýndi Shearer sjálfan.
„Hafa menn ekki lært sína lexíu af því að kaupa þennan mann. Ef Rafael Benítez hefði leitað ráða hjá mér, hefði ég sagt honum nákvæmlega hvernig hann væri. Ég og fyrrum félagar mínir í Newcastle, Gary Speed og Steve Harper, og eiginkonur okkar, vorum í fríi í Frakklandi á dögunum og ég leit í dagblað. Dagurinn var búinn að vera frábær en þegar ég las að Bellamy gæti verið á leið til Newecastle varð ég að fara beint á barinn og fá mér nokkra gráa. Ég vona svo sannarlega að það sé ekkert til í þessu," sagði Shearer.
Hann sagði að það yrði sérlega athyglisvert ef Bellamy kæmi því Terry McDermott væri enn þjálfari hjá Newcastle. "Já það yrði sérstakt, eftir samskiptin þeirra á milli á Anfield," sagði Shearer en McDermott og Bellamy rifust heiftarlega þegar Liverpool og Newcastle mættust í fyrra.