Franski sóknarmaðurinn Thierry Henry er sagður vera á leiðinni til Barcelona frá Arsenal fyrir um 24 milljónir evra, rúmlega tvo milljarða íslenskra króna. Samningurinn hefur ekki verið staðfestur en talsmaður spænska félagsins sagði aðstoðarfjármálastjóra liðsins, Ferran Soriano, og knattspyrnustjóra Arsenal, Arsene Wenger, hafa hist og rætt saman í Lundúnum.
Spænska útvarpsstöðin Cadena Ser, sem flutti fyrst af því fréttir þegar David Beckham og Zinedine Zidane skrifuðu undir hjá Real Madrid, segir að félagaskiptin séu gengin í gegn og dagblaðið El Mundo Deportivo heldur því fram að Henry muni koma til Barcelona á sunnudaginn og að félagskiptin verði tilkynnt í næstu viku.
Barcelona vann engan af stærstu titlunum á síðustu leiktíð og það er eitthvað sem hvorki forráðamenn né stuðningsmenn liðsins sætta sig við. Ljóst er að Henry yrði frábær liðsstyrkur fyrir annars stjörnum prýtt lið Barcelona en hann hefur verið skærasta stjarna Arsenal-liðsins síðustu ár.