Arsenal og Henry staðfesta félagaskiptin til Barcelona

Thierry Henry hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Arsenal og …
Thierry Henry hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Arsenal og er á leið til Barcelona. Reuters

Arsenal staðfesti nú í morgun að það hafi náð samkomulagi við Barcelona um félagaskipti franska sóknarmanninn Thierry Henry og leikmaðurinn sjálfur skrifar opið bréf til stuðningsmanna Arsenal þar sem hann kveður þá. Henry segir megin ástæðuna fyrir því að hann sé að yfirgefa Arsenal séu þær að framtíð knattspyrnustjórans Arsene Wengers hjá Arsenal sé óviss og að varaformaðurinn David Dein hafi hætt hjá félaginu.

,,Arsene Wenger hefur verið hluti af mínu lífi svo lengi sem ég man eftir. Því miður hefur hann sagt, sem maður hefur vissan skilning á, að hann vilji ekki tjá sig um framtíð sína hjá félaginu og hvort hann framlengi samning sinn sem rennur út eftir næstu leiktíð. Ég ber virðingu fyrir ákvörðun hans og heiðarleika en ég verð 31 ára gamall í lok næstu leiktíðar og ég get ekki tekið þá áhættu að vera hjá Arsenal án Arsene Wengers og David Dein," segir Henry í bréfinu sem birt er í enska blaðinu The Sun.

Henry gengst undir læknisskoðun í Barcelona á mánudaginn og eftir hana mun hann skrifa undir fjögurra ára samning. Börsungar greiða 16 milljónir punda fyrir Frakkann snjalla sem jafngildir 2 milljörðum íslenskra króna en félagið keypti Eið Smára Guðjohnsen frá Chelsea í fyrra 1,1 milljarð króna.

,,Þetta er algjörlega mín ákvörðun og það er enginn sem hefur þvingað mig til að gera eitthvað. Það verður frábært að ganga til liðs við Barcelona sem er frábært félag, með mikla hefð og sögu og spilar fallegan fótbolta. Ég er alveg sannfærður um að ég verð ánægður hjá félaginu," segir Henry.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert