Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool segir á vef félagsins í dag að það sé engin ástæða til að örvænta þó svo að liðinu hafi ekki orðið ágengt á leikmannamarkaðnum í sumar. Reiknað hafði verið með að Liverpool yrði stórtækt á leikmannamarkaðnum í sumar í kjölfar yfirtöku Bandaríkjamannanna George Gillett og Tom Hicks á félaginu.
Liverpool hefur samið við tvo unga og efnilega leikmenn frá Ungverjalandi en ekkert stórt nafn hefur bæst í hópinn enn sem komið er.
,,Við er nokkra leikmenn í sigtinu og það eru margir sem hafa sett sig í samband við okkur. Það er engin örvænting í okkar herbúðum en ég vonast til að fá nýja leikmenn og þá helst áður en undirbúningstímabilið byrjar," segir Benítez.
Spænski framherjinn Fernando Torres, Darren Bent framherji Charlton og Ísraelsmaðurinn Yossi Benayoun hjá West Ham eru meðal þeirra leikmanna sem hafa verið orðaðir við Liverpool á undanförnum vikum.