Bresk blöð greina frá því í morgun að Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal ætli að reyna að fá Argentínumanninn Carlos Tevez frá West Ham til liðs við sig en Wenger leitar nú logandi ljósi að framherja til að fylla skarð Thierry Henrys. Haft er eftir Tevez að honum lítist vel á Arsenal og hann passi vel inn í leikstíl liðsins.
,,Ég veit að margir hafa talað um Arsenal og það gæti verið áhugavert að fara þangað. Arsenal er stórt og öflugt félag og ég þyrfti ekki að flytja frá London ef ég færi til félagsins. Enski fótboltinn heillar mig og ég held að ég myndi falla vel inn í leikstíl Arsenal," segir Tevez í samtali við The Sun.