Spænska knattspyrnufélagið Atlético Madrid tilkynnti í dag að það hefði gengið frá kaupum á Luis García frá Liverpool og hann snýr því aftur til félagsins eftir fimm ára fjarveru. Kaupverðið var ekki gefið upp en það tengist kaupum Liverpool á Fernando Torres frá Atlético, sem væntanlega verða frágengin í dag eða á morgun.
García er 29 ára gamall spænskur landsliðsmaður, á 18 landsleiki að baki fyrir Spán, og hefur spilað með Liverpool undanfarin þrjú ár. Þar lék hann 121 leik og skoraði 30 mörk.
García hóf ferilinn hjá Barcelona þar sem hann lék með varaliði félagsins í tvö ár, 1997-1999. Hann lék með Valladolid frá 1999 til 2002 en var þá um skeið á láni hjá Toledo og Tenerife. Hann spilaði með Atlético Madrid 2002-2003 og Barcelona 2003-2004, en Liverpool keypti hann þaðan sumarið 2004 fyrir 6 milljónir punda.