Eggert Magnússon stjórnarformaður West Ham birti í dag yfirlýsingu á vef félagsins þar sem fram kemur að ekkert samkomulag hafi verið gert við West Ham um að Carlos Tévez yfirgefi félagið. Fregnir bárust af því í dag að Tévez hafi samþykkt að fara til Manchester United og að menn frá félaginu væru á leið til Venesúela til að ganga frá samningi við hann.
,,Carlos Tévez er skráður leikmaður West Ham og er bundinn samningi við félagið til júní 2010. Það hefur ekkert samkomulag verið gert við West Ham um að Carlos Tévez fari frá félaginu og við reiknum með honum þegar undirbúningstímabilið hefst. Það er ekki hægt að taka neina ákvörðun um framtíð hans nema með samningi við West Ham," segir í yfirlýsingu frá Eggerti.