Krafist beinnar sölu á Tévez til Manchester United

Carlos Tévez er spenntur fyrir því að fara til Manchester …
Carlos Tévez er spenntur fyrir því að fara til Manchester United. Reuters

Stjórn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu hefur krafist þess að fari svo að Carlos Tévez verði seldur frá West Ham til Manchester United, eins og útlit er fyrir, fari sú sala einvörðungu fram á milli félaganna tveggja og Kia Joorabchian komi þar hvergi nærri. Joorabchian kom að hinum umdeildu félagaskiptum Tévez til West Ham á síðasta ári, sem þriðji aðili, og það olli málaferlum og West Ham hlaut þungar fjársektir fyrir vikið.

Forráðamenn West Ham segja að þeir hafi slitið öll tengsl við Joorabchian eftir að félagið var sektað í apríl. Samkvæmt BBC gæti West Ham í staðinn greitt Joorabchian skaðabætur eftir að samningurinn er frágenginn. Stjórn deildarinnar hefur, samkvæmt BBC, krafist þess að stærstur hluti kaupverðsins verði eftir í höndum West Ham.

Tévez er sjálfur spenntur fyrir því að fara til Manchester United. „Fyrir mig verður það stórkostleg upplifun. Ég þrífst á því að takast á við áskoranir, ég fór í ensku úrvalsdeildina til að slá í gegn og ég steig fyrsta skrefið í því hjá West Ham. Nú er ég tilbúinn til að taka næsta skref og það yrði magnað að vera í leikmannahópi hjá Alex Ferguson. Draumur minn er að verða stjarna í ensku úrvalsdeildinni og nú get ég látið hann rætast," sagði Tévez sem er í Venesúela að spila með landsliði Argentínu í Ameríkubikarnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert