Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United, kveðst vera þess fullviss að hann fái argentínska sóknarmanninn Carlos Tévez frá West Ham í sínar raðir innan skamms. Ferguson sagði á blaðamannafundi í morgun að hann vonaðist til þess að gengið yrði frá kaupunum á næstu dögum.
„Það hefur verið rækilega sagt frá því að við séum í viðræðum um Carlos Tévez. Lykilatriðin í málinu eru öll komin á hreint og við vonumst til þess að geta lokið því fljótlega. Maurice Watkins (lögmaður United) hefur unnið að því hörðum höndum síðasta mánuðinn, eða jafnvel lengur, að allt sé gjörsamlega á hreinu og engin hliðarmál tengist kaupunum á honum," sagði Ferguson.