Íslendingafélagið West Ham gekk í morgun frá kaupum á Craig Bellamy, fyrirliða velska landsliðsins í knattspyrnu, frá Liverpool fyrir 7,5 milljónir punda, rúmar 920 milljónir króna. Hann hefur skrifað undir fimm ára samning við félagið.
Bellamy, sem verður 28 ára gamall á föstudaginn kemur, lék aðeins eitt ár með Liverpool og skoraði 9 mörk í 42 leikjum fyrir félagið. Hann hefur komið víða við og leikið með Bradford Park Avenue, Norwich, Coventry, Newcastle, Celtic og Blackburn og oft komist í fréttirnar fyrir erfiða skapsmuni sína. Skemmst er að minnast þess þegar hann sló samherja sinn, John Arne Riise, með golfkylfu í æfingaferð Liverpool til Portúgals síðasta vetur.
Bellamy á að baki 44 landsleiki fyrir Wales og hefur skorað í þeim 13 mörk, og tók við fyrirliðastöðunni af Ryan Giggs í vor.