Stjórn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu hefur samkvæmt frétt BBC í dag sent West Ham viðvörun vegna fyrirhugaðrar sölu á Carlos Tévez til Manchester United. Stjórnin hótar því að West Ham eigi frekari refsingar yfir höfði sér ef félagið fái ekki greiðslu fyrir Tévez þegar hann verður seldur.
West Ham var sektað um 5,5 milljónir punda, 700 milljónir króna, í vor þar sem ekki var staðið rétt að félagaskiptum Tévez frá Corinthians í Brasilíu til West Ham á sínum tíma. Kia Joorabchian, sem síðasta haust keppti við Eggert Magnússon og Björgólf Guðmundsson um yfirráðin hjá West Ham, kveðst eiga samningsrétt Tévez. Stjórn úrvalsdeildarinnar samþykkir það ekki og segir að það kaupverð sem um verður samið eigi að renna til West Ham, þar sem félagið hafi tilkynnt í vor að það hafi rift samningnum við þriðja aðila, Joorabchian.