Það er skammt stórra högga á milli hjá Liverpool. Fyrr í dag var greint frá kaupum liðsins á hollenska landsliðsmanninum Ryan Babel og nú rétt í þessu gekk félagið frá fjögurra ára samningi við ísraelska landsliðsmanninn Yossi Benayoun sem leikið hefur með West Ham undanfarin tvö ár.
Liverpool greiðir West Ham 5 milljónir punda, 615 milljónir króna, fyrir Ísraelsmanninn, sem er 25 ára gamall. Rafael Benítez knattspyrnstjóri Liverpool segir að Benayoun eigi að fylla skarð Spánverjans Luis Garcia sem nýlega yfirgafa Liverpool og gekk til liðs við Atletico Madrid.
,,Benayoun er mjög klókur leikmaður sem hefur góða tækni eins og Garcia. Hann er fjölhæfur og getur spilað í mörgum stöðum sem er mikill kostur. Kannski er Garica meiri markaskorari en á móti kemur þá held ég Benayoun leggi upp fleiri mörk. Ég hef fylgst lengi með honum eða frá því hann spilaði með Santander og ég hef hrifist af honum," sagði Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool.
Benayoun lék 72 leiki með West Ham og skoraði í þeim 8 mörk. Hann gekk til liðs við West Ham frá Racing Santander árið 2005 og greiddi West Ham 2,5 milljónir punda fyrir hann.